28. 01 2013

Nú líður að lokum formannskjörs í Samfylkingunni. Það skiptir flokkinn miklu að þátttakan í kjörinu verði sem best. Ég vil hvetja þig til að kjósa í formannskjörinu og til að minna vini og ættingja sem skráðir eru í flokkinn á að taka þátt.

Mér er efst í huga þakklæti fyrir samskiptin og samtalið við mikinn fjölda fólks undanfarna mánuði.

Ég heillaðist barn að aldri af hugmyndinni um þjóðfrelsi og rétt undirokaðs fólks um allan heim til sjálfsákvörðunar. Það hafa verið leiðarljós í stjórnmálastarfi mínu allt til þessa dags. Þess vegna vil ég að Ísland standi vörð um sjálfstæði sitt með fullgildri þátttöku í samfélagi þjóðanna og að íslenskt launafólk njóti afkomuöryggis og verndar gegn ofríki stjórnvalda með sama hætti og fólk í nálægum löndum. Þess vegna vil ég auka vald fólks yfir eigin lífi og tryggja góða velferðarþjónustu án tillits til efnahags, á þeim forsendum sem fólk kýs sjálft.

Samfylkingin er eini flokkurinn sem byggir á svo sterkum rótum að geta með trúverðugum hætti ofið saman kvenfrelsi, verkalýðsbaráttu, velferðarsjónarmið, græn gildi, þjóðfrelsi, alþjóðahyggju og athafnafrelsi í óslítanlegan streng. Í þessari blöndu býr ótrúlegur kyngikraftur og á hennar grunni er auðvelt að veita svör við erfiðustu álitamálum okkar tíma. Spurningin er hvort við kjósum að nýta þetta hreyfiafl, rækta það og sækja fram með það sem höfuðvopn?

Ég hef notið mikils trausts, fengið tækifæri til að þjóna hreyfingu jafnaðarmanna og verið kallaður til verka í erfiðustu ráðuneytunum til að glíma við fordæmalaus verkefni í íslenskri sögu. Eftir þá reynslu hefur mér nú gefist færi á að þróa framtíðarsýn mína, byggða jafnt á hugsjónum bernskunnar og reynslu liðinna ára, og kynna ykkur hana. Samtöl mín við Samfylkingarfólk um allt land hafa þroskað þessar hugmyndir, stælt þær og bætt. Það er ekki sjálfsagt að njóta trausts félaga sinna með þessum hætti og ekki heldur að fá tækifæri til að þróa sýn á framtíðarverkefnin með þessum hætti. Ég lít því á undanfarin misseri sem eina langa uppskeruhátíð.

Fyrir þessi tækifæri þakka ég af alhug. Ég er reiðubúinn til að helga mig áfram því verki að finna hugsjónum okkar allra farveg í flóknum heimi. Nú er valið í höndum Samfylkingarfólks um land allt.

Árni Páll Árnason.

27. 01 2013

Á fundi í Kópavogi á miðvikudagskvöldið mættust formannsframbjóðendurnir Guðbjartur og Árni Páll.

Undir lok fundarins ítrekaði Guðbjartur að hann væri trúr grunngildum Samfylkingarinnar; réttlæti, jöfnuði og kvenfrelsi og varaði við því að flokkurinn kvikaði frá þeim.  Hann tók fram að í orðum hans fælist ekki ásökun í garð mótframbjóðandans.

Nýjar hugmyndir – mismunandi skoðanir
Á leiðinni heim fór ég hugsa um grunngildin og rifjaði upp í huganum tímann fyrir 13-14 árum þegar við Kvennalistakonur mættum fólki úr Alþýðubandalagi og Alþýðuflokki, landið um kring, í verkefninu að búa til nýjan stjórnmálaflokk. Það var tekist á, stundum skellt hurðum en sameining okkar tókst að mestu, því hugsjónin um sameinaða fjöldahreyfingu fólks með svipaða lífsýn varð stærri og mikilvægari en sértækar áherslur hvers og eins.  Á þessum árum sem liðin eru hefur Samfylkingin verið sterkust þegar okkur hefur borið gæfa til að taka fagnandi á móti nýjum hugmyndum, leyft mismunandi skoðunum að flæða um æðakerfi flokksins og nýtt okkur þann kraft sem skapast þegar fólk með ólíkan bakgrunn og sýn, vinnur að sömu markmiðum. Sjaldan höfum við dottið í þá  gryfju að efast um heilindi hvers annars og trúverðugleika sem jafnaðarmenn eða kvenfrelsissinnar því það skiptir máli í keppni samherja að þeir virði hvor annan og takist á um hugmyndir, sýn og leiðir, af sanngirni og heiðarleika.

Klipið smjör
Þetta hefur þeim Árna og Guðbjarti tekist í heiðarlegri baráttu um formannsembættið.  Í slíkri baráttu er líka mikilvægt að helstu stuðningsmenn sýni varkárni í málflutningi og slysist ekki út í þann leiða leik að gera mönnum upp skoðanir.  Þetta er sérlega mikilvægt þegar forystufólk sem hefur verið kosið til ábyrgðarstarfa, á í hlut.  Því voru það vonbrigði þegar varaformaður flokksins, Dagur Eggertsson, sá ástæðu til að rifja upp rúmlega ársgamalt viðtal við Árna Pál um Landsvirkjun og hann og fleiri dylgjuðu í kjölfarið um löngun Árna til að selja fyrirtækið.   Hér er hinn auma smjörklípuaðferð á ferð; að sá fræjum um óheilindi Árna sem „jafnaðarmanns“ með því að slíta orð hans úr samhengi og búa til úr þeim nýjan skilning.  Og fjölmiðlarnir löptu upp smjörið.

Það er merki um veikleika að  draga upp víglínur í stjórnmálum út frá dylgjum og smjörklípum. Aumt  gagnvart andstæðingum, aumara gagnvart samherjum.

Það hefur enginn sjálfskipaðan rétt til að ákveða hver hinn „sanni“ jafnaðarmaður er.

Lifandi umræða
Skilninginn á því hvað felst í gildunum „réttlæti, jöfnuður, kvenfrelsi“ má aldrei meitla í stein.  Ef svo væri hefði stjórnmálahreyfingin Kvennalistinn aldrei orðið til, né náð árangri, hvað þá skráð sig á spjöld Íslandsögunnar sem aflið að baki stökkbreyttri umræðu um frelsi kvenna til athafna.  Það er aðeins í gegnum lifandi umræðu, stöðuga framþróun hugmynda, þor til að orða það sem eru fyrir sumum heilög vé; að grunngildi ganga í endurnýjun lífdaga, í opinni vegferð þar sem nýjar kynslóðir meðtaka þau og gera að sínum.  Jafn mikilvæg og sönn sem áður.

Árni Páll er á slíkri vegferð og vill fá okkur með sér.
Í ræðu og riti, greinum, fésbók og bloggi  – á samkomu eftir samkomu -  hefur hann sýnt fram á hvernig öflugt velferðarsamfélag, heilbrigt og sterkt mennta- og menningarsamfélag, samfélag náttúruverndar og nýrra atvinnutækifæra, byggir á því að  okkur takist að treysta efnahag okkar og frelsi til afhafna, án hafta, án arðráns, án blæðandi gjaldmiðils.

Árni Páll Árnason sér hina stóru mynd og þorir að setja hana í orð.  

Höfundur starfar í listum og skapandi greinum

27. 01 2013

Í hönd fara spennandi tímar og krefjandi. Kosningar framundan og mikið rót er í samfélaginu. Þá er nauðsynlegt að í formannssæti Samfylkingarinnar sé einstaklingur sem hefur þá útgeislun og þann kraft sem getur laðað fólk að flokknum, áherslum hans og framtíðarsýn. Ég sé Árna Pál Árnason fyrir mér sem þennan einstakling og þess vegna styð ég hann í þeim formannskosningum sem nú standa yfir.

Slagkraftur Samfylkingarinnar
Eftir fimm ára ríkisstjórnarsetu á erfiðustu tímum sem þjóðin hefur lifað, á Samfylkingin undir högg að sækja. Framundan eru því átök, sem ég treysti Árna Páli best til að leiða flokkinn í gegnum. Öll viljum við byggja upp öflugt velferðarkerfi á Íslandi. Verða að fullu hluti af því sem kallað er norrænt velferðarkerfi. Við eigum þegar gott menntakerfi, gott heilbrigðiskerfi, hlúum vel að þeim sem minna mega sín og eiga í félagslegum erfiðleikum. En í öllum þessum greinum er þrátt fyrir það við erfiðleika að etja vegna ríkjandi ástands í kjölfar hrunsins. Aðeins Samfylkingin hefur það afl sem þarf til að koma ekki aðeins í veg fyrir að þetta kerfi verði eyðilagt í kjölfar komandi kosninga, heldur ekki síður til að efla það enn frekar þannig að þeir hópar sem vissulega hafa þurft að draga saman seglin undanfarin ár fái þá umbun sem þeir eiga skilið. Til að geta leitt það verkefni þarf sterkan formann, sem hrífur fólk með sér.

Árna Pál í forystu
Eitt grundvallaratriðið í framtíð okkar er að þjóðinni auðnist að verða þátttakandi í samstarfi Evrópuþjóða, í Evrópusambandinu. Árni Páll hefur til að bera þá framtíðarsýn, þá þekkingu, þann kraft og þann dugnað sem þarf til að leiða flokkinn og þjóðina í þeirri vegferð.

Þess vegna kýs ég Árna Pál Árnason til formanns Samfylkingarinnar.

Haukur Már Haraldsson framhaldsskólakennari

26. 01 2013

Við sem eigum þess kost þessa dagana að kjósa okkur formann í Samfylkingunni getum valið á milli tveggja öflugra kosta. Ég hef átt því láni að fagna að hafa kynnst báðum frambjóðendum og mannkostum þeirra og því var valið ekki auðvelt. Guðbjartur er yfirvegaður og traustur og á gott með að tala við fólk. Hann hefur staðið sig vel í erfiðum verkefnum ríkisstjórnarinnar undanfarin misseri og verið traustsins verður. Gutti hefur verið auðfúsugestur á fundum Samfylkingarfélagsins í Kópavogi og alltaf tilbúinn til að ræða þau mál sem kallað hefur verið eftir. Það er í raun lúxusvandamál að þurfa að velja milli tveggja góðra kosta svo við skulum ekki sýta það.

Að velja á milli
Árni Páll er mjög ólíkur Guðbjarti. Hann kemur fyrir sjónir sem kraftmikill og skeleggur en ég veit líka að þessi óþreyjufulli stjórnmálamaður er djúpt hugsandi leiðtogi sem greinir viðfangsefnin og skoðar ólíkar leiðir. Honum þykir vænt um fólk og hann er lífsglaður maður sem hefur gaman af því að hlusta og sætta ólík sjónarmið.

Helstu ástæður
Ég hef ákveðið að kjósa Árna Pál til að leiða Samfylkinguna næstu ár. Árni Páll er litríkur og kraftmikill og er stjórnmálamaður nýrra tíma. Hann er svo eldklár og þroskaður að hann nær jafn vel til þeirra sem eldri eru og unga fólksins. Hann er heilsteyptur jafnaðarmaður með skýra pólitíska sýn og veit hvert þjóðin þarf að stefna, en ekki síður það sem mikilvægt er, hvernig við förum þangað. Hann hefur yfirgripsmikla þekkingu á efnahags- og utanríkismálum og vel útfærðar hugmyndir um hvernig koma megi á auknu jafnvægi í fjármálum þjóðar sem tekst á við afleiðingar af efnahagslegu stórslysi sem varð vegna þess að grímulaus sérhagsmunagæsla réði hér ríkjum í landinu í áratugi.

Þegar vel gengur og þegar á móti blæs
Árni Páll hefur sinnt grasrót Samfylkingarinnar með aðdáunarverðum hætti og hann veit að formaður Samfylkingarinnar þarf að vera í tengslum við fólkið sem starfar úti í aðildarfélögunum, bæði í stemningu sigra og fögnuðar en ekki síður þegar á móti blæs og hindranir blasa við. Hann er góður félagi, ósérhlífinn og duglegur. Árni Páll virðist alltaf hafa gaman af því að takast á við fjölbreytt verkefni.

Samfylkingin til sigurs
Árni Páll  hefur hæfileika til að hrífa fólk með sér og kveikja með því áhuga og baráttuanda.  Árni Páll hefur kraftinn til að leiða Samfylkinguna til sigurs í alþingiskosningunum í vor. Hann hefur alla burði til að gera Samfylkinguna að enn stærri og kröftugri jafnaðarmannaflokki sem stendur vörð um gildi jafnaðarmennskunnar, almannahagsmuni og uppbyggingu heilbrigðara samfélags.

Ég kýs Árna Pál til formanns í Samfylkingunni.

Höfundur er formaður Samfylkingarfélagsins í Kópavogi

25. 01 2013

Tveir hæfir heiðursmenn gefa kost á sér til forystu fyrir Samfylkinguna. Allir skráðir flokksmenn fá að velja á milli þeirra, en ekki bara lokaður landsfundur. Þetta er mikið og dýrmætt valfrelsi. Ég hefi greitt Árna Páli Árnasyni atkvæði mitt. Fyrir því eru nokkrar ástæður, en sú vegur þyngst, að hann hefur góða þekkingu á efnahagsmálum, er snarpur ræðumaður, dugandi í vörn og sókn og hlýr í mannlegum samskiptum. Ég treysti honum einnig til að standa fast á grunngildum jafnaðarstefnunnar. Það hafði einnig áhrif á val mitt, hve óþægilega forysta flokks míns hefur opinberað afstöðu sína til formannsefnanna.- Báðir frambjóðendur hafa háð sína baráttu með heiðri og sóma. Ég hygg þeir geti báðir treyst því, að flokksmenn muni styðja og standa með nýjum formanni.

Árni Gunnarsson fyrrv. Alþingismaður.

24. 01 2013

Nú þegar við Íslendingar erum óðum að vinna okkur út úr erfiðleikum síðustu ára, stöndum við frammi fyrir mörgum grundvallar verkefnum sem munu hafa afgerandi áhrif á framtíð okkar. Mikilvægt er að samfélagið byggi á réttlæti, jöfnuði og samábyrgð. Velferðarsamfélag þar sem öflugt heilbrigðiskerfi og menntun fyrir alla er sjálfsagður hlutur. Þar sem langtímasjónarmið eru sett ofar skammtímagróða.

Til þess að standa undir slíku þjóðfélagi þurfum við dýnamískt samspil einkaframtaks og ríkisvalds. Öflugt og fjölbreytt atvinnulíf sem byggir á kraftmiklu, ábyrgu einstaklingsframtaki og víðsýnu ríkisvaldi, sem styður við verðmætasköpun atvinnulífsins en setur þó skýrar leikreglur. Síðast en ekki síst þurfum við að vinna áfram ötullega að inngöngu í ESB með upptöku Evru sem gjaldmiðil að leiðarljósi. Öllu skiptir að Samfylkingin leiki lykilhlutverk í þessari vinnu á næstu árum. Til þess að svo megi verða þurfum við meðal annars að velja okkur öfluga forystu.

Stjórnmálaleiðtogi sem ætlar sér að stýra þessari þróun þarf að hafa skýra sýn á framtíðina, hæfileika til að miðla henni og þann eiginleika að geta laðað nýja liðsmenn til fylgis við sig. Þá þarf hann að eiga auðvelt með að greina hismið frá kjarnanum og vera reiðubúinn til að taka djarfar ákvarðanir. Hann verður þó að vera opinn fyrir skoðunum annarra og búa yfir ríkum samstarfsvilja.

Ég er sannfærður um að Árni Páll býr yfir þessum kostum og því styð ég hann til formennsku í Samfylkingunni.

Logi Einarsson arkitekt og bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar á Akureyri.

24. 01 2013

Ég hef að undanförnu mikið velt fyrir mér hvort ég eigi að skipta mér af formannskjörinu í Samfylkingunni. Ég hef verið dyggur stuðningsmaður Samfylkingarinnar frá stofnun hennar. Ég vil ekki leyna þeirri skoðun minni að núverandi ríkisstjórn hefði getað gert margt betur. En við jafnaðarmenn huggum okkur við það að viðfangsefni ríkisstjórnarflokkanna á kjörtímabilinu er líklega það erfiðasta sem nokkur ríkisstjórn hefur glímt við á lýðveldistímanum.  Að reisa heilt efnahagskerfi úr rúst eftir hrun. Margt hefur þar tekist vel til. Það er ekki það sem hefur truflað okkur.  Það sem dregur hinn  pólitíska mátt úr okkur, mörgum  í verkalýðshreyfingunni, er hvernig forystumenn okkar í stjórnmálum  hafa vanvirt mikilvæg samskipti við verkalýðshreyfinguna. Fyrirheit hafa verið gefin við undirritun kjarasamninga og framlengingu þeirra sem hafa reynst orðin tóm þegar á reyndi. Þessi afstaða og vinnbrögð stjórnmálamanna hafa smám saman grafið undan öllu samstarfi og trúnaðartraustið sem er undirstaða samstarfsins fer þverrandi þar til enginn samstarfsvilji er eftir. Þetta er því miður staðan nú í lok þessa kjörtímabils. Trúnaður milli forystumanna í Samfylkingu og verkalýðshreyfingunni er farinn í bili að minnsta kosti.

Að endurheimta traust
Ég met það svo að eitt af stóru verkefnum nýrrar forystu í Samfylkingunni sé að endurheimta þetta traust. Eftir að hafa hlustað á formannsefnin og lesið stefnumarkandi skrif þeirra beggja undanfarnar vikur hallast ég að þeirri skoðun, með fullri virðingu fyrir þeim báðum, að Árni Páll Árnason sé sá frambjóðandi sem er líklegri til að ná þeim árangri sem við gerum kröfu til í þessu efni. Á þessu kjörtímabili hef ég átt nokkur samskipti við Árna Pál  þar sem skoðanir okkar í mikilvægum málum hafa ekki alltaf farið saman. Það sem ég hef metið mest við hann sem stjórnmálamann, er að hann mætir okkur flokksmönnum af hæversku en um leið með einurð og sannfæringarkrafti.  Ég hef kunnað að meta virðingu hans fyrir öðrum sjónarmiðum en sínum eigin þó að hann fylgi málum fast eftir með einurð og krafti.

Kynslóð Árna Páls taki nú við….
Ég álít einnig að verkefni næsta kjörtímabils sé að skapa sátt milli kynslóða um sanngjarna skiptingu skulda og eigna í þjóðfélaginu. Mikil eigna og skuldatilfærsla varð í þjóðfélaginu við efnahagshrunið. Efnahagslegt jafnvægi næst ekki að nýju nema með því að knýja fram áherslur á almannahagsmuni á kostnað sérhagsmuna.  Í þessu efni þarf mikla pólitíska yfirsýn og kjark. Ég met það svo að kynslóð Árna Páls eigi nú að taka við þessu viðfangsefni og það verði eitt helsta úrlausnarefni næsta kjörtímabils. Árni Páll sýndi það í ráðherratíð sinni að hann hefur kjark og þor í erfiðum málum m.a. í skuldamálum almennings þar sem alltof margir stjórnmálamenn ástunduðu sýndarmennsku og yfirboð gegn betri vitund. Það ætti að vera öllum stjórnmálamönnum ljóst að vinna þarf áfram í skuldamálum almennings  og finna þar ásættanlegar lausnir sem þjóðin getur búið við.  Ég álít að þetta sé eitt mikilvægasta málið sem brennur helst á kynslóð Árna Páls og félaga og því eðlilegt að sú kynslóð fái að glima við vandann.

Vel útfærðar hugmyndir um framtíðarsýn
En mikilvægast af öllu er framtíðarsýnin sem nú einkennir  sem betur fer málflutning beggja frambjóðenda en þar sýnist mér Árni Páll hafa betur útfærðar hugmyndir um hvernig koma megi á jafnvægi í efnahagsmálum, koma krónunni í skjól meðan við undirbúum  varanlega vegferð okkar inn á stærra gjaldmiðlasvæði og tengjumst vonandi öðrum Evrópuþjóðum með því að taka upp gjaldmiðil evrusvæðisins. Eftir miklar og erfiðar umræður í öllum helstu ríkjum Evrópusambandsins um skuldugustu ríki álfunnar, hafa andstæðingar aðildar Íslands að Evrópusambandinu  fengið vind í seglin og ýmsir stjórnmálamenn okkar megin hafa farið til hlés þegar virkilega reynir á okkur Íslendinga í aðildarumsókn okkar. Ástandið í Evrópusambandinu ætti samt að vekja okkur enn betur til vitundar um mikilvægi þess að þjóðir Evrópu standi saman í efnahags- og gjaldmiðlamálum þegar hriktir í stoðum einstakra Evrópuríkja. Ég hef verið mjög ánægður með hvernig Árni Páll Árnason hefur ekki látið bilbug á sér finna í þessu stærsta sjálfstæðismáli þjóðarinnar, að við fáum notið Evrópusamvinnunnar að fullu með því að gerast fullir þáttakendur í því samstarfi.

Að lokum þetta
Það eru mjög stór pólitísk mál sem bíða þess að nýir forystumenn taki við boltanum í Samfylkingunni. Þar er brýnasta hagsmunamálið að koma okkur Íslendingum út úr sjálfheldu gjaldeyrishaftanna. Þetta er stórmál sem snýr að almenningi og við megum ekki sætta okkur við heilan áratug í viðjum hafta íslensku krónunnar. Hér tel ég að Árni Páll tali fyrir samspili frjálslyndra viðhorfa, áræðni og góðum samstarfsvilja við helstu viðskiptaþjóðir okkar. Aðeins með því að afnema höftin sem fyrst getur okkur Íslendingum tekist að búa okkur til sambærileg lífskjör og í nálægum löndum.
Annað stórmál sem verður meira og meira aðkallandi að leysa er að allir Íslendingar búi við sambærileg kjör í lífeyrismálum en ég álít Árna Pál einmitt  góðan talsmann viðhorfa jafnréttis að þessu leyti.
Það má leiða líkur að því að í mörgum stórmálum okkar tíðar svo sem stjórnarskrármálinu og kvótamálinu, sé komið að nýrri kynslóð að koma þeim málum í höfn. Hin margreynda kynslóð Jóhönnu og Guðbjarts hefur sannarlega lagt sitt af mörkum til að koma okkur áleiðis.

En er þetta ekki einmitt augnablikið í sögunni þegar við þurfum að setja ábyrgðina á næstu kynslóð, sem á líka mest undir því að lífskjör á Íslandi verði sambærileg við það besta sem við þekkjum á komandi árum?

Þráinn Hallgrímsson skrifstofustjóri verkalýðsfélagsins Eflingar

24. 01 2013

Það var mér mikið fagnaðarefni þegar Árni Páll Árnason gaf kost á sér til að leiða Samfylkinguna. Frá því að ég kynntist Árna Páli í starfi mínu með Samfylkingunni á Seltjarnarnesi hef ég verið þess fullviss að þar væri leiðtogaefni á ferð. Hann hefur þroskast sem stjórnmálamaður og lært af sigrum jafnt sem ósigrum á liðnu kjörtímabili. Árni Páll hefur verið ötull að rækta samskipti við félaga sína og kjósendur í kjördæminu og hann er einn af fáum sem leggur sig fram um að hlusta á sjónarmið annarra.

Árni Páll hefur alla burði til að verða farsæll leiðtogi jafnaðarmanna og forystumaður þjóðarinnar á þeim viðkvæmu tímum sem eru framundan. Hann hefur sterka framtíðarsýn sem byggist jöfnum höndum á raunsæju stöðumati og þrá eftir réttlátara samfélagi. Hann er jákvæður, kjarkmikill og baráttuglaður og blæs með því félögum sínum eld í brjóst. Samtímis hefur hann einnig sýnt með störfum sínum að hann er tilbúinn að leita lausna sem sætta ólík sjónarmið.

Það er sannfæring mín að Samfylkingin þurfi að ná góðum árangri í næstu kosningum og verða burðarflokkur í næstu ríkisstjórn. Við blasa vandasöm viðfangsefni á sviði efnahags- og atvinnumála. Þau þarf að leysa með jafnaðarstefnuna að leiðarljósi ef okkur á að auðnast að hafa hér efnahagslega sjálfstætt, opið og réttlátt velferðarsamfélag með sambærilegum lífskjörum og bjóðast í nálægum löndum.

Ég treysti engum betur en Árna Páli til að leiða þá vegferð og afla henni víðtæks stuðnings.

Höfundur er fyrrv. formaður Samfylkingar á Seltjarnarnesi

24. 01 2013

Við vitum öll hvert tjón verðtryggð lán valda okkur. Vandinn við verðtrygginguna er bara einn: Lán eru verðtryggð en laun ekki. Það er nefnilega ekki þannig að lánin hækki: Þau halda verðgildi, en krónan er þynnt út og launin okkar rýrð. Lánin eru ekki að hækka, heldur launin að lækka. Þetta finnst flestum stjórnmálaflokkum á Íslandi mjög sniðugt.

Skuldum í krónum en fáum borgað í ótryggðum krónum
Vegna gríðarlegs veikleika íslensku krónunnar vill enginn lána í íslenskum krónum til langs tíma nema með tryggingu. Gengistrygging var prófuð hér síðustu ár og hefur verið dæmd ólögmæt. En verðtrygging er ekkert annað en óbein gengistrygging. Innlent verðlag ræðst að langmestu leyti af gengi krónunnar, því við flytjum inn allar helstu neysluvörur. Vandi okkar felst í því einu að við skuldum í hálfgengistryggðum krónum en fáum borgað í ótryggðum krónum.

Mannréttindi að fá greitt í peningum
Fyrir rúmum hundrað árum var samþykkt á Alþingi frumvarp Skúla Thoroddsen, þingmanns Ísfirðinga, um greiðslu verkkaups í gjaldgengum peningum. Fram til þess tíma höfðu lausamenn í kaupstöðum fengið greitt í inneignarnótum frá kaupmönnum, en ekki í peningum. Kaupmennirnir réðu því frá degi til dags hversu mikið var hægt var að fá fyrir inneignarnóturnar og höfðu margfalt verð: Algengt var að það magn sem kostaði 20 aura með peningum kostaði 25-30 aura með inneignarnótu.

Hörmungarsaga hefst
Samþykkt laganna frá 1901 hefur allt til þessa dags verið talin til stærstu sigra íslenskrar verkalýðshreyfingar. Færri hafa hins vegar hnotið um þá staðreynd að hér var um skammgóðan vermi að ræða. Íslenska krónan árið 1901 var nefnilega gjaldgengur gjaldmiðill. Henni var að hægt að skipta á jafngildi við danska krónu eða sænska eða fyrir andvirði hvorrar myntar um sig í gulli. Íslenskir framleiðendur og atvinnurekendur þurftu því að verða sér úti um alvöru gjaldmiðil til að standa skil á launum. Við vorum hluti af heimshagkerfinu. Árið 1920 breyttist þetta. Það ár var íslenska krónan aftengd þeirri dönsku og tekin af gullfæti. Þar með hófst sú hörmungarsaga heimatilbúinna efnahagssveiflna, hafta og gengisfellinga sem staðið hefur sleitulítið fram á þennan dag og leitt hefur til þess að íslenska krónan hefur rýrnað um 99,95% gagnvart þeirri dönsku á þessum tíma.

Krónan líkt og inneignarnótur fortíðar
Allt frá 1920 höfum við því verið í sömu stöðu og íslenskur verkalýður var fram til 1901. Við höfum ekki fengið greitt í gjaldgengum peningum, heldur í peningum sem eru líkari inneignarnótum fyrri tíma. Peningum sem eru rýrðir að verðgildi eftir því sem innlendum framleiðendum hefur þóknast, eða viðskiptakjör á erlendum mörkuðum hafa kallað eftir. Ákvörðun um kaupgjald hefur í reynd verið flutt til þeirra sem stjórna landinu og vina þeirra. Í krónuhagkerfinu er ekki samið í reynd um laun heldur um uppbætur. Raunverulegar launaákvarðanir eru teknar með breytingum á gengisskráningu.

Hentar hvorki launafólki né fyrirtækjum
Þessi efnahagsumgjörð hentar ekki launafólki. Hún hentar ekki heldur samkeppnisgreinum sem byggja á hugviti og keppa um markaði við fyrirtæki í öðrum löndum, þar sem rekstrarforsendur eru stöðugar og framtíðin ljós. Einu atvinnugreinarnar sem hingað til hafa þolað þetta umhverfi eru greinar sem njóta ókeypis aðgangs að aðstöðu eða auðlindum, sem geta niðurgreitt kostnaðinn af óstöðugum gjaldmiðli. En þau líða líka fyrir óstöðugleika og ofurvexti.

Að fá greitt í gjaldgengum peningum
Stærsta hagsmunamál íslensks launafólks og verðmætaskapandi fyrirtækja er nú að koma okkur aftur á þann stað sem við þó komumst á 1901: Að fá greitt í gjaldgengum peningum með raunverulegt virði. Við getum ekki skuldað og borið kostnað af rekstri heimilis í einum gjaldmiðli en fengið borgað í inneignarnótum. Afturförin er svo augljós: Meira að segja í árdaga verkalýðshreyfingar, þegar verkföll voru bönnuð og verkalýðsfélög ekki með samningsrétt skulduðum við þó og fengum laun í sama gengistryggða gjaldmiðlinum.

Gjaldgengur gjaldmiðill – eða ekki
Í engu öðru þróuðu ríki býr launafólk og verðmætaskapandi fyrirtæki við sambærilegt ofríki. Þess vegna snýst spurningin um aðild að Evrópusambandinu og upptöku evru um svo allt annað og meira hér á landi en í nokkru nágrannalandanna. Þau búa við gjaldgengan gjaldmiðil en við ekki. Þar er valið milli tveggja kosta sem báðir hafa kost og löst. Hér er valið um gjaldgengan gjaldmiðil – eða ekki.

Drápsklyfjar krónu
Alþjóðleg samkeppni með krónu er eins og að hlaupa 100 metra hlaup á Ólympíuleikum á vaðstígvélum með 20 kílóa lóð á bakinu. Þess vegna flýja fyrirtækin þetta góða land og fólkið ferðbýr sig. Það er sannkallað kraftaverk hverju íslensk þjóð og samkeppnishæf fyrirtæki hafa áorkað með þessar drápsklyfjar síðustu tæp 100 árin. Hugsið ykkur hvað við gætum, ef þessari byrði væri létt af okkur og við nytum sama öryggis og réttlætis og frjálsborið fólk í öðrum Evrópulöndum?

Árni Páll Árnason

24. 01 2013

Allir flokksmenn Samfylkingarinnar fá það tækifæri að kjósa formann á næstu dögum.  Kjörkatlar nýaldar eru rafrænir og við höfum tíu daga til að velja. En sá á kvölina sem á völina. Því lái ég það engum sem velkist í vafa um að velja með einum músarsmelli á  milli þeirra tveggja frábæru frambjóðenda sem í boði eru til að leiða Samfylkinguna næstu fjögur árin. Samfylkingin sýnir hér og sannar enn og aftur þá lýðræðislegu yfirburði sem hún hefur umfram aðra flokka. Allir flokksmenn fá að kjósa sinn leiðtoga á eins auðveldan hátt og hægt þ.e. í gegnum tölvuna heima hjá sér. Hér birtast á borði en ekki aðeins í orði grunngildin um lýðræði og jöfn tækifæri.

Nýr gjaldmiðill – stærsta hagsmunamál þjóðarinnar
Ég tók þá ákvörðun að kjósa formann sem ég hef trú á að leysi eitt af stærstu verkefnum íslensk samfélags. Stöðugleiki í efnahagsmálum landsins og nýr gjaldmiðill eru brýnustu verkefnin sem liggja á borði stjórnmálamanna í dag. Ég fyrir mitt leyti hef séð ljósið og veit að íslenskri flotgengiskrónu fylgja stór mein sem verða aldrei leyst – heldur aðeins plástruð. Má þar nefna fjármagnskostnað almennings við lántöku sem birtist í háum óverðtryggðum vöxtum og verðtryggingu neytendalána sem veldur vöxtum ofan á samningsvexti lánsins. Þá er fjármagnskostnaður fyrirtækja sem skipta í ónýtri krónu gríðarlega hár eða ríflega 10% sem skilar sér aftur út í verðlagið og við sem neytendur borgum að endingu fyrir. Loks er ónefnd gengisfelling krónunnar sem hefur valdið gríðarlegri kaupmáttarskerðingu sem við almenningur í landinu borgum fyrir á hverjum degi, beint í vasa útflutningsfyrirtækja sem hagnast á auðlindum þjóðarinnar. Krónan er eins og undirstaða trésins, rótin sjálf, sem allt hagkerfið byggir á og verðtrygging lána birtist sem ein af greinum þess – sprottin af rótinni. Raunhæf lausn á gjaldmiðilsvanda þjóðarinnar er stærsta hagsmunamál Íslendinga.

Formaður sem hlustar
Ég kýs Árna Pál vegna þess að ég hef trú á því að hann geti ráðist í þann vanda sem krónan er og veitt því verkefni pólitíska forystu. Hann er áræðinn, býr yfir þekkingu og hæfni í efnahags- og utanríkismálum sem er afar dýrmætt. Þess vegna treysti ég honum til að taka slaginn við hagsmunaaðila íslenskrar krónu. Hann hefur sjálfsöryggi, bæði til að hlusta og leita bestu sérfræðiþekkingar, en líka til að taka ákvörðun þegar það þarf og standa fast á henni. Ég treysti Árna Pál til að leiða íslensku þjóðina í ljósið.

Árni Páll mun leiða breiðfylkingu jafnaðarmanna
Árni Páll heldur fast í hugsjónina um Samfylkinguna sem breiðfylkingu jafnaðarmanna. Það er mín bjargfasta trú að í því felst styrkur okkar. Við fáum ætíð bestu útkomuna ef við leiðum mörg sjónarmið saman og mætum öðrum skoðunum fordæmalaust, en höfum jafnframt þekkinguna til að greina hismið frá kjarnanum.
Loks treysti ég Árna Páli til að leiða áfram það verk sem hafið er, að byggja samfélag á grunngildum jafnaðarmennskunnar – að Íslendingar búi við sterkt velferðarkerfi, jöfn tækifæri til menntunar og byrðum sé jafnt dreift í gegnum skatt- og almannatryggingakerfið. Árni Páll skilur ennfremur að til þess að við getum byggt slíkt samfélag þurfum við öflugt atvinnulíf, til að stuðla að verðmætasköpun svo við eigum fyrir velferðinni og getum boðið vinnandi höndum fjölbreytt atvinnutækifæri. Í því verkefni þarf að byggja brýr og snúa bökum saman.

Þar er Árni Páll rétti maðurinn til verksins.

Eva H. Baldursdóttir lögfræðingur

24. 01 2013

Jæja, þá er það formannskjörið í Samfylkingunni. Tveir ­góðir menn í framboði og svolítið erfitt að gera upp hug sinn. En eftir að hafa hugsað málið og setið þrjá fundi með frambjóðendum hallast ég að því að Árni Páll sé betri kostur í þeirri stöðu sem nú blasir við.

Sprungur og kítti
Guðbjartur kemur fyrir sem vandaður maður og góður fulltrúi en Árni Páll virkar þó kraftmeiri og öllu „formannslegri“. Hann er skeleggur og hugsandi, og honum er annt um heildarmyndina, sér málin úr fjarlægð, greinir stóra vandann á bakvið hversdagskarpið. Orð hans um 100 ára vistarband og geðklofinn gjaldmiðil eru meira en lítið eftirtektarverð og ættu að verða stóra málið í kosningabaráttu vorsins.

„Allt síðan 1920, þegar íslensku krónunni var kippt úr sambandi við gullfótinn og dönsku krónuna, höfum við búið við tvískiptan gjaldmiðil. Við fáum launin okkar í platkrónum á meðan skuldirnar teljast í alvörukrónum. Kjarasamningar skipta litlu sem engu þegar forsendur fyrir þeim bresta í næsta gengisfalli. Líkja má kjarasamningum við það að farið sé með kíttisspaða yfir sprungurnar sem jarðskjálftar gengis­breytinganna hafa skilið eftir.“

Baráttan fyrir alvöru gjaldmiðli er líkast til stærsta efnahagsmálið sem framundan er. Þar blasir sérstaða Samfylkingar við. Enginn annar flokkur býður uppá lausnarleið út úr þeim vanda og tilvitnuð greining Árna Páls ber merki um skýran hug þótt andlitið sé loðið.

Lausaganga kjósenda
Af tveimur góðum formannskostum hef ég meiri trú á því að málflutningur og kraftur Árna Páls nái út fyrir raðir flokksmanna. Formannskjörið þarf að vera sú innspýting sem nær að stækka flokkinn í komandi kosningum. Við þurfum að ná til „hlutlausa“ fólksins á miðjunni sem nú stefnir unnvörpum á flokk sem lofar bjartri framtíð án þess að eiga sér þá glæstu fortíð sem hreyfing jafnaðarmanna státar af.

Árni Páll þótti standa sig vel sem ráðherra á örlagatímum, tók upp ný vinnubrögð í ráðuneytinu, náði alvöru allraflokkasamráði í ­Icesave-málsvörninni, beitti sér ­fyrir breytingu á formi ríkisstjórnarfunda, vill leggja niður ráðningarvald ráðherra og minnka vald þeirra almennt séð. Hann talar um flokkinn sem opna og umburðarlynda breiðfylkingu ólíkra sjónarmiða, og er það vel. Sumir segja hann of markaðssinnaðan hægrikrata sem höfði meira til miðjunnar en vinstrimanna. Hér getur sá „galli“ þó einmitt orðið kostur, því á miðjunni er lausagangan mest. „Við eigum ekki að stinga augun úr VG í leit að fylgi,“ svo vitnað sé í frambjóðandann.

Unga fólkið
Á þeim fundum sem ég hef séð til Árna Páls veittist honum létt að kveikja bjartsýni og baráttuhug með fólki. Hann á þrátt fyrir allt ­djúpar rætur í vinstrinu, og hefur ­arkað margar pólitískar heiðar í átt að þessu tækifæri. Það heyrist vel að hann hefur tekið langt tilhlaup að formannsstólnum, er vel tilbúinn í slaginn. Þá spillir ekki að maðurinn er vel menntaður og vel heima í Evrópumálunum. Hann hefur jafnvel, einn örfárra íslenskra stjórnmálamanna, búið erlendis í nokkur ár, talar ensku og dönsku og er „ráðherrafær“ á þýsku og frönsku.

Loks finn ég vel, eftir samtöl við yngsta fólkið í flokknum, sem hvergi fékk sæti ofarlega á nýjustu framboðslistum, að það þráir að sjá nýja kynslóð taka við forystunni í Samfylkingunni.

Inn á við / út á við
Ég finn það líka að Guðbjartur á atkvæði margra í innsta flokkshring. Einnig sú staðreynd hvetur mann til að kjósa Árna Pál. Því nú ber að kjósa út á við. Kosningarnar 27. apríl munu ekki snúast um starfið í Samfylkingunni heldur myndun næstu ríkisstjórnar. Þar þarf formaðurinn að koma fylgisbreiður að borði og hafa styrk til að kljást við ­málþjófana í sjónvarpssal fyrir kosningar og í símtölum eftir kosningar. Ég treysti því að Árni Páll leggi þá að velli þar líkt og hann  mun hafa gert í vetur, á fundum með þeim í Valhöll og Viðskiptaráði.

En hvernig sem formannskosningin fer skulum við samt verða ánægð með úrslitin, faðma ­nýjan formann, og taka svo til við hina raunverulegu kosningabaráttu. Sá frambjóðandinn sem tapar þarf heldur síst að örvænta. Eins og dæmin sanna getur það einmitt verið ávísun á lengra líf í pólitík.

Hallgrímur Helgason rithöfundur

Greinin birtist fyrst í helgarblaði DV, 18. janúar.

24. 01 2013

Ekki þótti mér það stórhuga ákvörðun, þegar ríkisstjórnin tilkynnti að setja ætti aðildarviðræðurnar við ESB á ís, þótt eflaust hafi það verið óhjákvæmilegt, miðað við það hvernig ríkisstjórnarflokkurinn VG hafði þjösnast á málinu. Það er slagsíða á þessari ríkisstjórn. Það hallar á stærri flokkinn. Með þessari ákvörðun var eitt helsta baráttumál Samfylkingarinnar blásið af. Ef fram heldur sem horfir í skoðanakönnunum verður því jafnframt slegið á frest að leggja nýjan grunn að bættri velferð almennings á Íslandi.

Snjóhengjan vofir yfir
Við erum einstaklega lagnir við það Íslendingar að skjóta sjálfa okkur í fótinn. Við viljum frekar láta lægst launuðu hópa samfélagsins berast í bökkum, en taka af manndómi á þeim meinsemdum sem hrjá þjóðfélagið.  Áfram skal búið við viðvarandi þróttmikla verðbólgu, sem borguð er að mestu leyti af  skuldugum íbúðaeigendum. Áfram skal búa við gjaldmiðil sem ekki er hægt að koma stöðugleika á og veldur stöðugum flótta fyrirtækja af landinu. „Snjóhengjan“ svokallaða vofir yfir þjóðinni án þess að við megnum að minnka hana. Áfram skal illa settur almenningur greiða meira fyrir landbúnaðarvörur en á nokkru öðru byggðu bóli, þrátt fyrir ógnar stuðning skattgreiðenda í formi niðurgreiðslna. Áfram skal meirihluti bænda hýrast við þröngan kost án hvetjandi framtíðarsýnar.

Samfylkingin standi í lappirnar
Þetta er kjarni þeirra vandamála sem næsta ríkisstjórn þarf að leysa. Þeir sem eru hreinskilnir gagnvart sjálfum sér vita, að aflandskrónuvandinn (snjóhengjan) verður ekki leystur nema í samstarfi við Evrópska Seðlabankann. Hér þarf  því styrkar hendur og fumlausa hugsun, ef vel á að fara. Með þetta í huga er það afar mikilvægt að Samfylkingin, sem verið hefur eini óskipti stuðningsflokkur aðildar, standi  í lappirnar og velji sér formann sem veit hve mikilvæg aðild okkar að ESB er fyrir velferð almennings og sjálfstæði þjóðarinnar í bráð og lengd. Þar má hvergi hvika.

Við þurfum forystumann
Sérhver ríkisstjórnarþátttaka Samfylkingarinnar verður að vera skilyrt framgangi þessa máls. Reynsla Alþýðuflokksins undir forystu Jóns Baldvins, sem skilyrti ríkisstjórnarmyndun við framgang EES málsins, var bæði árangursrík og lærdómsrík. Það skipti meira máli að koma því stórmáli heilu í höfn en láta blekkjast af fagurgala. Þetta veit Árni Páll mæta vel. Þeir sem fylgst hafa með Árna Páli frá því hann hóf stjórnmálaferil sinn, hafa tekið eftir breytingum til meiri stjórnmálaþroska  og víðtækari þekkingar. Hann er ekki gallalaus frekar en aðrir en hann hefur lært af mistökum, bæði annarra og sjálf síns. Blaðaskrif hans undanfarna mánuði bera þess vott. Hann hefur auk þess einn mikinn kost, sem stjórnmálaforingi verður að hafa.  Hann er ófeiminn við að taka ákvarðanir, jafnvel svo að manni fannst stundum nóg um.  Á okkar erfiðu og viðsjárverðu tímum þurfum við á forystumanni eins og Árna Páli að halda. Sýn hans á framtíð þjóðarinnar vekur vonir.

Þess vegna styð ég hann til formanns Samfylkingarinnar.

Þröstur Ólafsson hagfræðingur.

24. 01 2013

Forystufólk stjórnmálaflokka ber þunga og mikla ábyrgð, ekki síst þegar kemur að því að móta stefnu og vinna henni fylgi. Þar er auðvitað að mörgu að hyggja því stjórnmálin umlykja daglegt líf okkar og skapa það samfélag sem við byggjum saman.

Það skiptir máli hverjir stjórna
Kosningar til Alþingis eru í nánd. Þá vega og meta kjósendur menn og málefni, flokka og stefnuskrár. Útkoma kosninga er oftast ófyrirsjáanleg, ekki bara úrslitin sjálf heldur sá málefnakokteill sem verður hristur saman í nýrri ríkisstjórn. Þá reynir á þá sem hafa verið valdir til forystu í flokkunum. Þá þarf að ná sínu fram og hnýta alla lausa enda.
Íslandi er best borgið með aðild að Evrópusambandinu í bráð og lengd. Þar gildir einu hvort litið er til lífskjara, starfsskilyrða atvinnulífsins, öryggis- og varnarmála eða menningarmála. Það er bjargföst skoðun mín og margra annarra.

Efnahagslegur stöðugleiki tryggður
Samfylkingin er að velja sér formann. Hann verður að vinna ötullega að því að tryggja efnahagslegan stöðugleika og búa í haginn fyrir öflugan útflutning. Það er forsenda góðra lífskjara. Með haftakrónu, hárri verðbólgu, gengissveiflum og annarri óáran sem fylgir okkar sjálfstæðu peningamálastefnu tekst það ekki. Aðild að Evrópusambandinu er auðveldasta og raunhæfasta leiðin til varanlegs árangurs.

Einbeittur og stefnufastur
Nýr formaður þarf að hafa skýra sýn í þessu stóra hagsmunamáli. Hann þarf að þekkja vel til allra þátta þess og hafa getu til þess að leiða saman alla þá sem hafa sömu sýn á vettvangi stjórnmálanna. Hann þarf að vera einbeittur og stefnufastur í verkum sínum, sannkallaður málafylgjumaður. Það er ekki auðvelt að rísa undir þessum kröfum, auk annarra mannkosta sem formaður stjórnmálaflokks þarf til að bera.

Árni Páll er rétti maðurinn.

Jón Steindór Valdimarsson lögfræðingur og formaður Já Ísland

24. 01 2013

Nú eru liðin ríflega tíu ár frá því að Samfylkingin gaf út metnaðarfullt rit margra höfunda um Evrópumál, skipulagði fundahöld og samræðu um landið allt og loks allsherjaratkvæðagreiðslu til að ákvarða stefnu flokksins í Evrópumálum. Síðan þá hefur Samfylkingin ein flokka í landinu staðið heilsteypt að baki þeirri sýn að Ísland skuli tryggja hagsmuni sína með virkri þátttöku í Evrópusamstarfi og leysa gjaldmiðilsvanda sinn með upptöku evru.

Tafir samstarfsflokksins
Þegar þetta er skrifað er ljóst að þetta höfuðverkefni Samfylkingar og lykilhagsmunamál landsins verður að fá nýjan kraft til að knýja fram nýja pólitíska stöðu. Stuðningsfólki Samfylkingarinnar brá í brún að morgni mánudags þegar ríkisstjórn Íslands birti yfirlýsingu um að Ísland ætlaði að hægja á aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Hvernig er það hægt? spurðum við mörg enda ljóst að samstarfsflokkurinn í ríkisstjórn hefur tafið málið og spillt með ljósum og leyndum hætti á kjörtímabilinu. Og nú þetta. Samt nægir aldrei að benda á aðra heldur verðum við að taka okkur sjálf saman í Evrópuandliti flokksins. Þess vegna er það svo mikilvægt hver veitir flokknum og þar með Evrópumálinu forystu á komandi misserum. Samfylkingin verður að kjósa sér leiðtoga sem hefur burði til að veita Evrópumálinu þá forystu sem það þarf nauðsynlega á að halda nú.

Enginn flokkur má skila auðu
Ísland á enga þjóðarhagsmuni stærri en fulla þátttöku í innri markaði Evrópu þangað sem nær 80 prósent útflutningsviðskipta okkar fara. Staða okkar á innri markaðnum er í uppnámi vegna hafta, vegna breytinga á EES-samstarfinu og vegna þess að við höfum ekki enn ákveðið hvernig fjármálakerfi né tengingar við umheiminn við viljum. Þessar ákvarðanir þola enga bið. Hver svo sem verður forsætisráðherra á Íslandi næsta sumar kemst ekki hjá því að taka þær. Þess vegna getur enginn stjórnmálaflokkur skilað auðu.

Krónuhagkerfið búið
Það er löngu tímabært að Samfylkingin snúi vörn í sókn í baráttu fyrir aðildarferlinu hér heima og samningsstöðu Íslands á erlendri grundu. Allir Íslendingar eru sammála um að krónuhagkerfið, með sínum verðtryggðu skuldum og stöðuga óstöðugleika, veitir enga lausn, en færri virðast enn skilja hina einu rökréttu leið út úr ógöngunum. Ný staða evrusvæðisins og nýtt bankasamband Evrópu breytir stöðu Íslands. ESB hefur gengið í gegnum mikla kreppu eins og Ísland en nú efast enginn lengur um að Evrusvæðið lifi og styrkist með nýjum hætti. Í mótun er nýr veruleiki samstarfs Evrópuþjóða rétt eins og var 1989 þegar EES var ýtt úr vör og gaf Íslandi tækifæri sem landinu auðnaðist að nýta.

Úr vörn í sókn
Nú þarf sóknarstefnu, þekkinguna og útsjónarsemi til að grípa tækifærin í þróun og deiglu Evrópu og tryggja bestu mögulegu stöðu Íslands. Samfylkingunni tókst að tryggja að Ísland fór í samstarf við AGS  þrátt fyrir stálharða andstöðu sem kom í senn yst frá hægri og yst frá vinstri og lauk því til meiri farsældar fyrir landið en flestir þorðu að vona. Evróputengslin nú – innri markaðurinn, full aðild, upptaka Evru, bankasamband og gjörbreytt EES er sams konar áskorun sem við verðum að taka og leiða til farsælla lykta.

Árni Páll þekkir alþjóða- og efnahagsmál
Og til þess þurfum við nýjan formann með burði til að leiða bæði alþjóðamál og heimamál. Árni Páll Árnason er slíkt formannsefni. Hann bar sem ráðherra ábyrgð á samskiptunum við AGS og hefur flestum öðrum fremur lagt sig fram um að greina efnahagslega og alþjóðapólitíska stöðu Íslands og efnt til opinnar umræðu þar um með greinaskrifum.
Samfylkingin getur valið mann sem gjörþekkir Evróputengsl Íslands, samningaviðræðurnar um Evrópska efnahagssvæðið og þá orrahríð sem þá gekk yfir íslensk stjórnmál. Þegar Samfylkingin efndi til atkvæðagreiðslunnar 2002 var hann einn höfunda skýrslunnar sem lagði grundvöllinn að umræðunni og sáttinni í flokknum. Árni Páll hefur langa reynslu af samstarfi á alþjóðavettvangi, af samningum við erlend ríki og starfi innan alþjóðastofnana eftir margvísleg störf fyrir íslensku utanríkisþjónustuna.

Sem efnahagsráðherra hafði Árni Páll frumkvæði að því að fá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins til formlegs samstarfs og ráðgjafar um afnám hafta. Honum tókst líka að sameina öll lið af Icesave-vígvellinum innanlands í samstillta og sterka málsvörn fyrir Íslands hönd í dómsmálinu gagnvart EFTA.

Framundan er bæði sókn og vörn fyrir mikilvægasta hagsmunamál Íslands. Við veljum Árna Pál til formanns vegna Evrópumálsins.

Þórunn Sveinbjarnardóttir fyrrv. þingmaður og ráðherra

24. 01 2013

Framundan eru einar mikilvægustu þingkosningar í áratugi. Næsta ríkisstjórn mun móta þá  stefnu sem verður tekin í kjölfar endurreisnar landsins. Í Samfylkingunni verður kosið um formann í febrúarmánuði  í rafrænni kosningu meðal allra flokksfélaga. Það skiptir miklu máli hver verður formaður í Samfylkingunni sem er burðarflokkur í íslenskum stjórnmálum. Árni Páll Árnason hefur boðið sig fram til þess verkefnis og er að okkar mati öllum þeim kostum búinn sem formaður jafnaðarmanna þarf að bera.

Yfirgripsmikil þekking
Í fyrsta lagi er Árni Páll hugmyndaríkur og áræðinn stjórnmálamaður. Hann hefur skýra pólitíska sýn og er einn fárra þingmanna sem hafa yfirgripsmikla þekkingu á þremur mikilvægustu verkefnum næstu ára í íslenskum stjórnmálum. Þessi verkefni eru að klára umsóknarferli Íslands að ESB, að ljúka endurreisn og tryggja uppbyggingu efnahagskerfisins og að tryggja að takmörkuðum gæðum sé sem jafnast skipt á milli þjóðarinnar. Á þessum málum hefur Árni  Páll þekkingu umfram aðra þingmenn. Þekkinguna hefur hann meðal annars öðlast sem ráðherra efnahagsmála, velferðarmála og varaformaður utanríkismálanefndar Alþingis.

Þegar blása þarf til sóknar
Í öðru lagi býr Árni yfir þeim kostum sem prýða sterkan forystumann. Hann hlustar á pólitíska andstæðinga og hann sættir ólík sjónarmið. Hann er sveigjanlegur þegar við á en staðfastur þegar svo ber undir. Hann talar alltaf af sannfæringu og þekkingu – og af eldmóði þegar blása þarf til sóknar. Árni Páll er einlægur jafnaðarmaður með skýra framtíðarsýn. Árni Páll hlustar á félaga sína innan flokks sem utan og er heiðarlegur í ákvarðanatöku.

Auðmýkt, elja og dugnaður
Í þriðja lagi hefur Árni Páll tekist á við þau verkefni sem honum hafa verið falin af auðmýkt og þeirri elju og dugnaði sem einkennir hann. Hann fer óhræddur nýjar leiðir og stendur við erfiðar og umdeildar ákvarðanir án þess að falla í þá gryfju að kaupa sér vinsældir með röngum ákvörðunum. Við treystum Árna Páli best til þess að leiða Samfylkingu jafnaðarmanna til sigurs í vor og til framtíðar.

Guðríður Arnardóttir, Hafsteinn Karlsson og Pétur Ólafsson eru bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar í Kópavogi

24. 01 2013

Það er ágætis siður að tala með því sem maður velur og ekki gegn því sem maður velur ekki. Það er trúverðugara og betra. Í vali Samfylkingarinnar á nýjum formanni eru tveir góðir og gallalitlir kostir í boði. Hér geri ég grein fyrir vali mínu.

Stjórnmál almannahagsmuna
Það er mikilvægt í mínum huga að fyrsti kostur nýs formanns í mögulegri stjórnarmyndun eftir kosningar, sé að mynda stjórn til vinstri. Afhverju? Því ég tel líklegast að heilbrigðis-, mennta- og velferðarkerfið verði varið og hér verði stunduð stjórnmál almannahagsmuna og samkenndar með náunganum, sé stjórnin í höndum flokka vinstra megin við miðju. Báðir virðast vera á sömu skoðun, sem betur fer.

Formaður fylgir stefnunni
Nýr formaður Samfylkingarinnar þarf að vera trúr stefnu flokksins sem er mótuð af flokksmönnum á hverjum tíma. Hann má hafa sínar skoðanir en þegar umræðunni er lokið og við höfum ákveðið okkar stefnu, þá er það hlutverk formannsins að taka stefnu flokksins og bera hana fram fyrir þjóðina á skýran hátt. Hann þarf ekki að vera flokknum sammála í einu og öllu, svo framarlega sem hann sinnir skyldu sinni með því að vera trúr félögum sínum í orðum og verkum.
Leiðtogi þarf að vera hugrakkur. Hann má ekki vera hræddur við sviðsljósið og þarf að þora að stíga fram og taka rökræðuna. Hann þarf að vera mælskur, en aðeins á þann hátt að hann geti komið jafnaðarstefnunni skýrt frá sér. Það er allt sem á að gera, og allt sem þarf að gera. Restin liggur í höndum kjósenda.

Ótrauð áfram
Hverjum manni er hollt að takast á við neitun og styrkur manna kemur best í ljós þegar á móti blæs. Mönnunum eru sett takmörk, sem við þurfum að gera okkur grein fyrir og virða. Sætta okkur við það sem við fáum ekki breytt. Maður sem kann að falla með sæmd en halda samt ótrauður áfram, er maður sem við þurfum á að halda. Í pólitík er mikilvægt að hafa sterka og stöðuga fætur, það eru fáir til þess að grípa mann. Og þetta er það allra mikilvægasta, því að allir falla einhvern tímann.

Sá sem ég mun kjósa í formannskjöri Samfylkingarinnar er maður sem fyrir mér er góður félagi, maður sem er óhræddur við að takast á við hlutina, en er sanngjarn á sama tíma. Hann er maður sem hefur vaxið í mótvindinum, hefur sterka fætur og hann virðist hafa ótæmandi kraft til þess að halda áfram. Síðast en ekki síst tel ég hann vera réttsýnan og sannan jafnaðarmann sem mun gera sitt besta til að halda áfram ríkisstjórnarsamstarfi sem leyfir jafnaðarstefnunni að blómstra.

Ég kýs Árna Pál.

Guðfinnur Sveinsson Heimspekinemi

24. 01 2013

Það er hægt að byggja réttlátt þjóðfélag. Trúðu mér. Taktu þátt í því. Þá gerist það. Þannig gerist það. Komum og ræðum um framtíðina. Hverskonar þjóðfélagi langar okkur að búa í? Hvað getum við gert til að geta búið okkur slíkt þjóðfélag? Það eru margar leiðir til, sumar einfaldar, aðrar býsna flóknar, svo nokkrar sem virka ekki og enn aðrar sem við viljum ekki fara af því þær leiða ekki til réttláts þjóðfélags. Um þær allar skulum við ræða, en alltaf og inn á milli, til að minna okkur á af hverju við séum að ræða um þær, af hverju við séum að þessu: Hverskonar þjóðfélag viljum við!

Þorum að vona. Þorum að eiga okkur draumsýnir. Jú, jú, við þurfum raunhæfar aðferðir til að ná árangri. En, við þurfum ekki endilega að einskorða draumsýnir okkar við það sem við sjáum að við getum raunverulega fengið. Markmiðið er ekki að ná fullkomnun, markmiðið er að taka þátt í ferðinni í átt að fullkomnun. Ánægjan er að upplifa breytingarnar til hins betra. Ævintýrið er að glíma við öll viðfangsefnin sem á leið okkar verða. Áskorunin er að læra og reyna, mistakast, villast, snúa við, biðjast fyrirgefningar, standa upp aftur, fara framúr á ný. Af hverju? Af því við viljum réttlátt þjóðfélag og ætlum og skulum ná því.

Af með gasgrímurnar
„Hjálpaðu mér upp, mér finnst ég vera að drukkna,“ söng Björn Jörundur, á hittingi stuðningsfólks Árna Páls um daginn. Bætti því við að þetta væri of þunglyndislegt lag hjá svona baráttuglöðu fólki. En ég hugsaði: „Og þó?“ Voru þeir Árni Páll og Hallgrímur Helgason ekki einmitt að ljúka við að tala saman um einhverja köfnunartilfinningu sem fólk finnur til í pólitískri umræðu á Íslandi? Hallgrímur talaði um það hvernig fólki er skipað niður í skotgrafir hér og þar, skilur ekkert af hverju það lenti þar, langar ekki að vera þar, en þorir ekki uppúr þeim. Árni Páll talaði um að fólki yrði ómótt þegar póltík bæri á góma, en þegar því væri svo boðið upp á málefnalega og upplýsandi umræðu um pólitík, væri það eins og að hella vatni á þurrt torf sem drekkur endalaust í sig.

Hallgrímur skrifaði um Valdfrekjumeðvirkni á DV og Árni Páll skrifaði honum sendibréf á heimasíðu sinni af því tilefni um Bláa og rauða boxhanska og bauð upp á leiðarvísi upp úr þriðju skotgröf til vinstri. Þennan samræðuþráð röktu þeir félagar upp, í þessum góðra vina hópi, skiptust á skoðunum og prjónuðu úr honum nýjan leista: “Hjálpum okkur upp og hættum við að kafna!” Skiljum Sjálfstæðisflokkinn eftir í reyknum af reykbombum sínum. Skiljum Framsóknarflokkinn eftir í fnyknum af fýlubombum sínum. Förum upp úr skotgröfunum, vöðum út úr forinni, skiljum gaddavírinn eftir. Þetta er ekki sá vígvöllur sem við viljum berjast á, ekki sá vígvöllur sem er þess virði að fórna sér á.

Skoðum og þorum
Lærdómur er alltaf og aðeins dreginn af reynslu. Allt annað eru kenningar, sem eiga eftir að prófast í reynslu. Við þurfum að vera bæði námsfús og gagnrýnin til að læra af reynslu og óhrædd við að prófa okkur áfram með nýjar kenningar. Kenningarnar verða nefnilega ekki til úr engu, heldur sem hugmyndir eftir fengna reynslu. Þess vegna er nauðsynlegt að fá í forystusveit stjórnmálanna fólk sem hefur bæði sýnt tilraunir til að stúdera reynsluna og sett fram tillögur að leiðum og sem hefur opinn hug og vilja til að kalla eftir reynslu og hugmyndum annarra. Það er einmitt þetta sem mér finnst heillandi við að fá Árna Pál til forustu í Samfylkingunni, það að hann hefur lagst í einhverja stúderingu á reynslunni og lagt sig fram um að leiða út framtíðarsýn. Fögnum þeim sem segir „ég vil“ og „mér finnst“, því hann hefur þó fjandakornið eitthvað til málanna að leggja.

Sumir verða því miður foj út í Árna Pál fyrir að hann sé að gagnrýna hina í Samfylkingunni. Mér finnst hann vera að gagnrýna okkur, sig meðtalinn, mig meðtalda og við þurfum gagnrýni og sjálfsgagnrýni til að þróast áfram. Það er margt sem Samfylkingin sem stjórnmálaafl þarf að breyta og bæta í starfsháttum sínum. Þá breytingu framkvæmir enginn einn, ekki einu sinni þótt hann verði formaður. Við sem heild verðum að taka okkur á til að af breytingum verði. Þolum gagnrýni og þorum að treysta þeim sem gagnrýna, þeir eru bandamenn okkar.

Við þurfum, verðum og skulum, leggja okkur fram um að læra af reynslu og setja fram sýn og leiðsögn til framtíðar. Þetta á við á öllum sviðum, eigin innviðum svo sem starfsháttum og framkomu og í stjórnmálastefnu. Hvað höfum við lært, hvert viljum við stefna og hvernig viljum við vinna, í efnahagsmálum, í velferðarmálum, í utanríkismálum, í atvinnumálum, í umhverfismálum, í lýðræðismálum, í starfsháttum?

Bjóðum og þiggjum
Stjórnmál eru sameign samfélagsins, en allt of oft er farið með þau eins og þau séu einkamál einhverra, einstaklinga eða stjórnmálaflokka. Lokaður hópur, „við“, gjarnan á forminu stjórnmálaflokkur, kemur sér saman um stefnu og „á“ hana síðan. Aðrir mega lýsa velþóknun sinni á stefnunni „okkar“ og kjósa frambjóðendur „okkar“. Til að „þið“ megið hafa áhrif á stefnu „okkar“ þá megið „þið“ verða hluti af „okkur“ með því að samþykkja þá stefnuskrá sem „við“ höfum samþykkt áður. (Svo getið „þið“ líka þusað eitthvað í návist „okkar“ í von um að „við“ hlustum á „ykkur“). Samt erum „við“ í öllu þessu stjórnmálastússi af óeigingirni til að vinna fyrir „ykkur“!

Ég er í Samfylkingunni af því ég vil taka þátt í hreyfingu (ekki bara flokki, heldur hreyfingu í andstæðri merkingu við kyrrstöðu) jafnaðarmanna sem vilja og ætla að breyta þjóðfélagi okkar í átt til aukins jöfnuðar, meira frelsis og betri samhygðar. Til þess að okkur megi takast þetta þurfum við öflugt stjórnmálaafl, án þess afls tekst þetta ekki. Afl þess felst ekki eingöngu í stærð þess sjálfs heldur í breidd þess, að það nái yfir breitt svið í skoðunum og fjölbreytni í þjóðfélagsstöðu liðsmanna sinna. Breidd þess ræðst ekki aðeins af innbyrðis breidd þess, heldur líka af hæfileika þess til að ná til nærlægra hreyfinga og mynda þannig með samtakamætti það hreyfiafl sem hefur bæði nægan kraft og nægan hljómgrunn til að geta hreyft heilt samfélag í samvinnu.

Leyfum okkur að koma til fólks
Sú stjórnmálahreyfing sem ætlar að leiða heila þjóð, þarf að geta samfylkt allnokkrum meirihluta þjóðarinnar að baki sér. Til þess þarf hún sjálf að búa yfir víðsýni og miklum vilja til þess að hlusta á, skilja og vinna með fjölda fólks með mismunandi þjóðfélagsstöðu og mismunandi þjóðfélagssýn, finna sameiginlega strenginn, virða það hvað fólk langar til. Samfylkingin þarf að bjóða fólki raunverulega að koma með sínar eigin hugmyndir, langanir og þarfir, en ekki bara til að sitja við fótskör okkar. Samfylkingin þarf að þiggja það sem fjöldi fólks hefur fram að færa, í skoðunum, tillögum, draumum og gagnrýni.

Förum upp úr skotgröfunum og tökum af okkur boxhanskana. Hættum að berja á andstæðingunum og förum að faðma samferðafólkið. Hættum að biðja fólk um að koma til okkar og komum til fólks. Hættum að biðja fólk um að styðja okkur og bjóðumst til að styðja fólk. Þiggjum það sem fjöldinn hefur fram að færa, aðeins þannig getum við orðið fjöldanum að liði við að láta drauma sína rætast. Lang flest fólk vill nefnilega það sama og við, frelsi, jafnrétti og bræðralag.

Soffía Sigurðardóttir

24. 01 2013

Ég er jafnaðarmaður og hef kosið að vera félagi í Samfylkingunni. Nú þegar formannskjör er framundan í Samfylkingunni, sem er einstakt meðal íslenskra stjórnmálaflokka vegna þess hversu margir eiga kosningarétt, þá er ég sáttur við þá valkosti sem í boði eru. Mér finnst gott að geta valið á milli nokkuð þekktra stærða, frekar en að velja hið óþekkta, sem margir virðast aðhyllast í dag.

Spurning um ólíkan stíl
Báðir frambjóðendurnir, Árni Páll og Guðbjartur, finnst mér búa sameiginlega og hvor í sínu lagi yfir eiginleikum sem ég met sem góða kosti fyrir leiðtoga í stjórnmálaflokki að hafa. Þetta eru eiginleikar eins og auðmýkt, ákafi, framtíðarsýn, hugrekki, mælska, réttsýni, sanngirni, sáttavilji, stjórnunarreynsla, yfirsýn, yfirvegun, vinnusemi og þekking. Hugmyndafræðilega sé ég ekki mun á Árna Páli og Guðbjarti, báðir finnst mér þeir standa traustum fótum sem klassískir jafnaðarmenn. Vinstri og hægri skilgreiningar finnst mér í besta falli vera mjög ónákvæmar til að greina á milli þeirra. Fyrir mér er þetta því spurning um ólíkan stíl, mat á því hvar meginstyrkleikar - og veikleikar þeirra liggja og hvaða eiginleikar mér finnast skipta mestu máli í fari næsta formanns Samfylkingarinnar.

Ég hef átt samskipti við bæði Árna Pál og Guðbjart á undanförnum árum í starfi mínu sem formaður Blindrafélagsins og mætt af hendi beggja velvilja, sanngirni og réttsýni. Árna Páli hef ég verið kunnugur lengi en leiðir okkar lágu fyrst saman í Æskulýðsfylkingu Alþýðubandalagsins. Guðbjarti man ég fyrst eftir sem vinsælum skátaforingja ofan af Skaga frá því að ég var í skátunum.

Líklegri til að stækka flokkinn
Þegar ég geri upp við mig hvorn frambjóðandann ég ætla að styðja til formanns í Samfylkingunni þá horfi ég til þess hvor þeirra mér finnst líklegri til að stækka Samfylkinguna og ná að laða fleiri til fylgis við jafnaðarstefnuna. Mér finnst einnig mikilvægt að horfa til klassískra leiðtogaeiginleika frekar en stjórnunareiginleika, hvoru tveggja eru að sjálfsögðu dýrmætir eiginleikar. Eins finnst mér mikilvægt að kynslóðaskipti eigi sér stað í forystu Samfylkingarinnar. Af þessum sökum hef ég ákveðið að styðja Árna Pál til formanns í Samfylkingunni.

Raunveruleg samræða
Reynsla mín af samskiptum við Árna Pál sem ráðherra vegur einnig þungt. En á þeim stutta tíma sem Árni Páll var félagsmálaráðherra þá varð ég vitni að vinnubrögðum ráðherra sem mér finnast vera til mikillar eftirbreytni. Hann kallaði saman breiðan hóp fólks til skrafs og ráðgerða um mál sem hann sem ráðherra var með til úrlausnar. Þar hlustaði hann á skoðanir og viðhorf annarra og mældi við sín eigin viðhorf og skoðanir. Þetta er samráð, þar sem kallað er eftir viðhorfum áður en málin eru orðin fullmótuð. Ég hef ekki orðið vitni að, eða verið boðið til þátttöku í sambærilegum vinnubrögðum frá öðrum ráðherrum. Mér finnst þetta vera vinnubrögð sem eru til fyrirmyndar og sýna á vissan hátt hversu traustum fótum Árni Páll stendur í klassískri jafnaðarstefnu, og hefur sem slíkur nægan kjark til að bjóða til umræðu þeim sem kunna að hafa aðrar og ólíkar skoðanir en hann sjálfur.

Fyrir mér er Árni Páll einnig einn af mjög fáum stjórnmálamönnum sem eru líklegir til að geta náð okkur út úr þeirri ömurlegu niðurrifsumræðu- og stjórnmálahefð sem lamar allt stjórnmálalíf á Íslandi í dag, til mikils skaða fyrir land og þjóð. Það vegur einnig þungt fyrir mig þegar ég tek þá afstöðu að styðja og kjósa Árni Pál Árnason til formennsku í Samfylkingunni.

Kristinn Halldór Einarsson formaður Blindrafélagsins

24. 01 2013

Í vor velja kjósendur fólk og flokka til setu á Alþingi næstu fjögur ár og ný ríkisstjórn verður mynduð. Mikil umskipti hafa orðið frá því gengið var síðast til kosninga og ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur tók að sér það vandasama verk að vinna okkur út úr afleiðingum allsherjarhruns. Við jafnaðarmenn getum verið stolt af því að okkar ríkisstjórn hefur haft jöfnuð og almannahagsmuni að leiðarljósi í öllum verkum sínum við þessar erfiðu og fordæmalausu aðstæður.

Öflugir formenn
Á líkingarmáli er hægt að segja að hús hafi hrunið og búið sé að hreinsa grunninn og gera klárt fyrir bygginguna. Gífurlega miklu máli skiptir hvernig hús verður byggt. Næsta ríkisstjórn mun stýra því verki og Samfylkingin á að leiða það verk. Þáttaskil verða líka í flokknum mínum þegar reyndasti stjórnmálamaður landsins víkur af vettvangi eftir vel unnin störf og við í Samfylkingunni veljum nýjan leiðtoga. Mjög öflugir einstaklingar hafa verið formenn í sögu Samfylkingarinnar;  Össur, Ingibjörg Sólrún og Jóhanna auk þess sem Margrét Frímannsdóttir leiddi fyrstu kosningabaráttuna en hún var fyrsta konan til að vera valin formaður í stjórnmálaflokki. I þessu formannskjöri veljum við forystumann til að leiða okkur inn í nýja framtíð og til að leiða uppbyggingu í landinu nú þegar rofar til -  fái Samfylkingin til þess umboð.

Velferðarsinninn Árni Páll
Það er nokkuð um liðið síðan ég fór að horfa á þingflokkinn og meta hvern ég sjái sem þennan mikilvæga forystumann. Ég sannfærðist um að Árni Páll hefði þá eiginleika sem skipta máli núna. Árni Páll er víðsýnn og alþjóðasinnaður og segja má að hann sé öflugur diplómat  sem ítrekað  hefur unnið mikilvægar stöður í Evrópumálum bæði heima og erlendis. Hann er velferðarsinni sem vill samræðu um lausnir og hefur leitað nýrra leiða í mikilvægum hagsmunamálum. Og hann þorir í samvinnu þvert á flokka til að leysa snúin viðfangsefni og þau verða mörg framundan.

Réttlæti í samfélagi jafnaðarmanna
Á ferli mínum sem stjórnmálamaður í 30 ár, fyrst í meirihluta í Kópavogi í þrjú kjörtímabil og í kjölfarið sem alþingismaður í 18 ár - með millilendingum sem aðstoðarmaður ráðherra og um sinn félagsmálaráðherra  - hef ég að mestu beint kröftum mínum í velferðarmálin og þar slær mitt hjarta. Mín framtíðarsýn er að okkur takist að búa til réttlátt jafnaðarmannasamfélag þar sem börn og foreldrar sem búa við  ólíkar aðstæður geti blómstrað. Að þeir sem þurfi stuðning samfélagsins sökum fötlunar, veikinda eða annars, búi við öflugt öryggisnet. Að saman tryggjum við lífsgæði alls fólks.

Nýtt fordæmi
Á stuttum tíma sem félagsmálaráðherra réðst Árni Páll í mikilvægar umbætur. Í kjölfar hrunsins varð að skera niður alls staðar líka  í tryggingakerfinu. Í stað þess að fara í flatan niðurskurð valdi hann að fara í breytingar á bótakerfinu og tryggja með því hag þeirra sem lakast voru settir - sem skipti sköpum á örlagastundu. Með því var jöfnuður aukinn og velferðin varinn enda lýsti AGS því yfir árið 2011 að Ísland hafði m.a. með þessu, skapað nýtt fordæmi í viðbrögðum við kreppu. Félagsmálaráðherrann átti persónulegt frumkvæði að því að allir íslenskir unglingar á viðkvæmasta aldri voru kallaðir út strax árið 2009 í átakinu Ungt fólk til athafna. Bestu sérfræðingar voru kallaðir til og árangurinn var stórmerkilegur eins og Barnaheill hefur m.a. vakið athygli á í alþjóðlegum samanburði. Atvinnuleysi ungs fólks minnkaði í kreppunni sem er einsdæmi.

Hjúkrunarheimilin að veruleika
Árni Páll opnaði líka á algerlega nýja leið til byggingar hjúkrunarheimila en æpandi þörf var orðin bæði fyrir ný rými og breytingar á þeim eldri heimilum þar sem tvíbýli viðgangast. Þess vegna eru byggingar hjúkrunarheimila nú  í gangi í mörgum sveitarfélögum sem annars hefðu ekki átt möguleika á úrræðum. Seinna var Árni Páll tímabundið efnahags- og viðskiptaráðherra og stofnaði til víðtækrar samvinnu  um leiðir til lausna í efnahags- og atvinnulífi. Ég varð þess vör hvað eftir annað að hann starfaði við góðan orðstír allra þeirra sem vildu vera með í að leggja hönd á plóg til lausna.

Uppbygging velferðarríkisins
Við Árni eigum það sameiginlegt að hafa unnið með norrænum sósíaldemókrötum. Við höfum átt langar samræður um þátt jafnaðarmanna alla síðustu öld í uppbyggingu velferðarríkja Norðurlandanna.  Hjá þeim vegur þungt áherslan á almannahagsmuni,  að réttindi og skyldur íbúanna fari saman og að enginn verði undir í lífsbaráttunni. Árni sagði nýverið í blaðagrein að efnahagsmál, utanríkismál, og velferðarmál væru samtvinnuð sem aldrei fyrr og í reynd eitt og sama verkefnið. Og hann sagði jafnframt:

„Ríkisstjórn jafnaðarmanna þarf að vera full baráttuþreks og brjótast til nýrrar framtíðar, geta faðmað þjóðina og fundið öllum rúm á þjóðarheimilinu. Hún er ekki stefnulaus, tekur almannahagsmuni ávallt fram yfir sérhagsmuni og leitar leiða úr erfiðum aðstæðum með samræðuna að vopni. Og henni eru allir vegir færir.“

Um þetta er ég Árna Páli algjörlega sammála og ég treysti honum best til að leiða slíka ríkisstjórn. Þess vegna skora ég á ykkur öll kjósa Árna Pál til formanns Samfylkingarinnar.

Rannveig Guðmundsdóttir fyrrv. alþingingismaður

07. 01 2013

Lítill leiðarvísir upp úr þriðju skotgröf til vinstri - bréf til Hallgríms Helgasonar.


Kæri Hallgrímur.

Ég var að lesa greinina þína „Valdfrekjumeðvirkni“ í helgarblaði DV og það brast eitthvað innra með mér. Of margir eru að gefast upp, einstaklingar sem eiga ríkt erindi í pólitík stíga ekki fram, sterkar konur hrekjast út, ferskar raddir kafna. „Salurinn er ónýtur“ segir þú um þingið. Vonbrigði þín eru smitandi - það finn ég á fólki sem les þig alltaf. Ég vel að bregðast við. Pólitíkin er ekki dauð fyrr en fólk hættir að segja hvað því býr í brjósti, gefur skít í draslið, hættir að gera sitt besta.

Vandi okkar er að stjórnmál gærdagsins héldu áfram eftir 2008. Vonbrigði dagsins í dag eru ekki áfellisdómur yfir verkum vinstri stjórnar. Þau eru birtingarmynd þess sama óþols og einkenndi búsáhaldabyltinguna: Þreyta valdsviptrar þjóðar með stjórnvöld sem gefa hátimbraðar yfirlýsingar um eigið ágæti: Fréttatilkynningar í stjórnlyndum stíl um hvað stjórnin hafi þegar gert og hvernig hún hafi ákveðið að verja skattfénu okkar.

Og kannski er ástæða til að örvænta. Valkosturinn er sannarlega skelfilegur, eins og þú rekur vel: Ekkert verður betra ef vinir gamla góða Villa geta tekið upp Eirarhætti við stjórn efnahagsmála.  

Það eru komin tíu ár síðan þú skrifaðir grein sem hét „Bláa höndin“. Hún lýsti mjög vel megineinkennum íslensks stjórnmálalífs á þeim tíma: Klíkuveldinu, hættulegri einsleitni í ákvarðanatöku, ofríki og hrikalegri meðvirkni. Kannski er stjórnmálalífi Íslands rúmum 10 árum síðar best lýst sem bardaga blárra og rauðra boxhanska.

Veikleiki okkar vinstri manna er að við höfum ekki greint Hrunið af sömu skarpskyggni og þú gerðir í Bláu höndinni. Okkur skortir að skilja að hvaða leyti það var afleiðing misráðinna innlendra stjórnarhátta, að hvaða leyti glæpsamlegrar hegðunar og að hvaða leyti óumflýjanleg afleiðing hrikalegrar fjármálakreppu á mjög skuldsett hagkerfi með fáránlega lítinn gjaldmiðil í opnu og hindrunarlausu hagkerfi. Ef stjórnarhættirnir og glæpamennskan voru allsráðandi ástæður ætti til dæmis að vera vandalaust að afnema gjaldeyrishöft, nú þegar gott fólk stjórnar og meintir glæpamenn eru ekki í lykilstöðum. En hvað blasir þá við? Jú, þverpólitísk samstaða um ótímabundin höft. Kann vandi okkar kannski að vera flóknari en við hugðum í upphafi og það dugi ekki bara að skipta um fólk? Er vonleysið kannski afleiðing þessarar vangetu okkar – fórnarlamba fákeppninnar - til að skilja flækjurnar og hætturnar sem eru því samfara að búa við valddreift samfélag og frjálsan markað í opnu hagkerfi?

Við tölum oft meira um Hrunið en það hvernig Ísland á að líta út árið 2017, hvað þá 2021. Fyrir vikið eiga kyrrstöðuöfl í stjórnarandstöðu þann auðvelda leik að segja ekkert um framtíðina. Jafnaðarmenn um alla norður-Evrópu byggðu hugmyndafræði sína á líkingunni um Þjóðarheimilið – undir forystu jafnaðarmanna ættu sér allir rétt til þátttöku og virðingar, jafnt eigendur fyrirtækja og launamenn. Hvar er hugsun íslenskra jafnaðarmanna um þjóðarheimili Íslands stödd í upphafi árs 2013?

Skipbrot stjórnarhátta genginna tíma kallar á alveg nýja stjórnarhætti, ekki andlitslyftingu eða mjúkmálli fulltrúa. Íslensk stjórnmál minna um sumt á á sápuóperuna Leiðarljós. Það er alltaf sama fólkið á sviðinu og enginn veit um hvað er rifist. Þeir sem deyja, vakna á ný til lífs nokkrum þáttum seinna. Við getum ekki látið stjórnmálin líða áfram endalaust í hægum endursýningum á ástum og hatri eldri kynslóðar íslenskra stjórnmálaforinga. Við verðum að fá til leiks nýja kynslóð stjórnmálamanna sem er tilbúin að kalla fram alla bestu eiginleika samfélagsins, menntun, vit og ábyrgð til að fá aldrei aftur Hrun. Efnahagsmál, utanríkismál og velferðarmál eru samtvinnuð sem aldrei fyrr og í reynd eitt og sama verkefnið. Það er pólitískt lífsspursmál Íslands núna að fá til starfa fólk sem notar bæði heilahvelin, sameinar andstæður, þekkir menningu annarra, hlustar á aðra og kryddar matinn sinn.

Ég hef farið um allt land og hitt að máli ólíkustu Íslendinga undanfarið og vil bjóða fram nýja stjórn undir forystu Samfylkingar sem skilur og skynjar hlutverk sitt sem burðarflokks jafnréttis, félagslegs réttlætis og frjálsrar samkeppni. Eftir 12 ára tilvist getur Samfylkingin sýnt að hún sé komin til manndómsára og ráði við það hlutverk sem henni var ætlað: Að vera breiðfylking á miðju og vinstri væng íslenskra stjórnmála, laus undan oki þess ofríkis og mannhaturs sem einkennt hefur íslensk flokkastjórnmál um áratugi. Við höfum alltaf verið dregin í dilka, nauðug viljug. Við þurfum að losna við köfnunartilfinninguna sem greinin þín lýsir. Stjórn undir forystu jafnaðarmanna má ekki standa í lok kjörtímabils eins og úrvinda bardagamaður með rauða boxhanska sem á þá ósk heitasta að dómarinn flauti bardagann af.

Ríkisstjórn jafnaðarmanna þarf að vera full baráttuþreks og brjótast til nýrrar framtíðar, geta faðmað þjóðina og fundið öllum rúm á Þjóðarheimilinu. Hún er ekki stefnulaus, tekur almannahagsmuni ávallt fram yfir sérhagsmuni og leitar leiða úr erfiðum aðstæðum með samræðuna að vopni. Og henni eru allir vegir færir.

Kær kveðja,

Árni Páll.