19. 11 2013

Við heyrum nú allra handa kviksögur um hvað í endanlegum tillögum ríkisstjórnarinnar um úrlausn skuldavandans muni felast. Og við getum ekkert gert annað en að bíða, enda hafnaði forsætisráðherra aðkomu stjórnarandstöðunnar að úrlausn skuldavandans síðasta sumar.

Forsætisráðherra hefur ekki veigrað sér við auka á væntingar skuldugra heimila. Hann hefur lýst fyrirhuguðum aðgerðum sem heimsmeti í úrlausn við skuldug heimili og setur því markið hátt, því fyrir liggur staðfesting Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á því að hvergi hafi verið meira gert í úrlausn skuldavanda heimila í heiminum en hér á landi á síðasta kjörtímabili. Þá lækkuðu skuldir heimila um 200 milljarða vegna ýmissa aðgerða stjórnvalda, löggjafans og dómstóla og 100 milljarðar fóru í vaxtabætur, sérstaka vaxtaniðurgreiðslu og barnabætur. Samtals er það því um 300 milljarðar á fjórum árum. Það heimsmet þarf að bæta ef Sigmundur ætlar að efna sitt.

En ríkisstjórnin er í vanda því að bæði Framsókn og Sjálfstæðisflokkur lofuðu að leggja ekki byrðar á ríkið af úrlausninni. Við munum öll hvernig ljótir erlendir hrægammar áttu að bera tjónið okkur öllum að kostnaðarlausu.

Það heyrist hins vegar nú að til standi að leysa málin með tvíþættum hætti og í báðum tilvikum á kostnað ríkisins. Annars vegar með því að skuldirnar verði lækkaðar og þá væntanlega um meira en 300 milljarða og Seðlabankinn taki á móti vaxtalaust skuldabréf og beri sjálfur kostnaðinn af lækkuninni, upp á von og óvon um hvað muni einhvern tíma koma ú túr erlendum kröfuhöfum. Hins vegar með því að fólk fái skattalækkun fyrir að borga inn á lánin sín. Þá veikist staða ríkissjóðs sem nemur lækkun skattteknanna. Um hvora leiðina skuli fara standi átök milli forystumanna stjórnarflokkanna.

Seðlabankinn tjáði sig skýrt í gær um skuldabréfaleiðina og sagði réttilega að hún gengi ekki, væri ígildi peningaprentunar, stæðist ekki lög og myndi setja landið í ruslflokk. Engum sem eitthvað þekkir til ríkisfjármála þótti þar nokkuð ofsagt. Ofsafengin viðbrögð forsætisráðherra við þessari yfirlýsingu í gærkvöldi vöktu því mikla athygli, en þau eiga sér nærtækari skýringu en margur heldur.

Síðdegis í gær spurði nefnilega Helgi Hjörvar formann Sjálfstæðisflokksins um afstöðu hans, í ljósi yfirlýsinga Seðlabankans. Þar tók formaður Sjálfstæðisflokksins undir með Seðlabankanum um að hann vildi forðast allt sem yki skuldir ríkisins og veikti lánshæfismat ríkisins. Það er hrósverð afstaða.

Reiðilestur Sigmundar Davíðs var því ætlaður öðrum en Seðlabankanum. Í gamla daga helltu stjórnarherrar Sovétríkjanna sér yfir Albaníu, þegar þeir þorðu ekki að skamma Kínverja. Sigmundur fer nú sömu krókaleið að því að skamma fjármálaráðherrann fyrir að vilja ekki láta ríkissjóð borga skuldaleiðréttingarnar – þvert á það sem hann sjálfur lofaði þjóðinni.
 

18. 11 2013

Sjávarútvegsráðherra talar nú fyrir því að kvótasetja makríl, þannig að enginn geti veitt makríl nema hafa til þess kvóta. Ég er sammála því, enda skynsamlegt að hafa stjórn á veiðum á öllum stofnum.

En ríkisstjórnin hyggst núna gefa makrílkvótann á grundvelli veiðireynslu undanfarinna ára. Það er ekkert sem kallar á það að kvótanum verði úthlutað án samkeppni. Af hverju má ekki bjóða þennan kvóta út? Engin útgerð hefur skuldsett sig til að kaupa þennan kvóta. Engin útgerð hefur áratuga langa reynslu af þessum veiðum og áunnið sér einhvern siðferðilegan hefðarrétt. Þess vegna eru kjöraðstæður til að úthluta kvóta með betri hætti í almannaþágu.

Ríkissjóður er í erfiðri stöðu og allir eru sammála um að við vildum svo gjarnan fá meira fé til að bæta velferðarþjónustuna. Heilbrigðisþjónustan þarf nauðsynlega á auknu fé að halda. Því ekki að bjóða út þessar almannaeigur? Hvers vegna á að gefa þær?

Ríkisstjórnin segir að veiðireynsla síðustu ára skipti öllu máli. En hún gengur í þveröfuga átt í nýlegum tillögum um kvótasetningu á úthafsrækju. Rækjukvótinn var til skamms tíma lítt eða ekki veiddur, því eigendur kvótans skiptu honum yfir í aðrar veiðiheimildir með svokallaðri tegundatilfærslu. Þess vegna voru rækjuveiðar gefnar frjálsar fyrir nokkrum árum. Á síðustu árum hafa nokkrar útgerðir sótt rækju og byggt undirstöður undir stönduga rækjuvinnslu á ýmsum stöðum. Sóknin er nú orðin of mikil og skýr rök fyrir því að kvótasetja úthafsrækjuna á ný.

Þá bregður svo við að ríkisstjórnin ætlar einungis að úthluta 30% af rækjukvótanum til þeirra sem sótt hafa rækju undanfarin ár. 70% af kvótanum eiga að fara til þeirra sem áttu rækjukvótann um síðustu aldamót og voru hættir að sækja hann! Ekkert sýnir betur tvöfeldnina í nálgun ríkisstjórninarinnar.

Ríkisstjórnin segir að veiðireynsla skipti öllu þegar spurt er hvort leigja eigi eða gefa kvóta. En sama ríkisstjórn virðir veiðireynslu að vettugi þegar hún telur mikilvægt að verja forréttindastöðu gamalgróinna útgerða, eins og í tilviki rækjukvótans.  

Eina skynsamlega leiðin við kvótasetningu nýrra tegunda er útboð. Það má hugsa sér að halda einhverjum hluta heildarkvótans eftir til úthlutunar á grundvelli veiðireynslu, en það er fráleitt að gefa allan kvótann með þeim hætti.

15. 11 2013

Nýútkomin þjóðhagsspá Hagstofunnar lýsir viðkvæmri stöðu. Við búum ekki lengur við afgang af viðskiptum við útlönd. Spá um gengi er að það verði áfram veikt og að kauphækkanir verði mjög litlar í kjarasamningum. Við blasir að ef kaupmáttur eykst muni innflutningur aukast og þrýstingur aukast á gengið.

Hagvöxtur er lítill og svo lítill að líklega ná fyrirtækin ekki að standa undir greiðslu skulda sinna. Framundan kann því að vera að fyrirtækin lendi aftur í sömu stöðu og rétt eftir hrun, þegar þau skulduðu meira en þau stóðu undir og gátu hvorki ráðið fólk né aukið við fjárfestingu í tækjum eða þekkingu.

Fjárfesting er lítil og gerir Hagstofan þó ráð fyrir því að Helguvíkurverkefnið eða ígildi hennar fari af stað á árinu 2015. Þrátt fyrir alla þessa kyrrstöðu er samt ekki gert ráð fyrir að verðbólga nái verðbólgumarkmiði fyrr en á árinu 2016!

Við þessar aðstæður þarf að tryggja innri vöxt með öllum tiltækum ráðum. Við þurfum meiri fjárfestingu í þekkingu og rannsóknum, auka menntunarstig í hverri grein og byggja þannig forsendur fyrir auknum hagvexti án þrýstings á gengið.   

Þessi sýn ætti að vera okkur öllum hvatning til að opna markaði og leita aukins krafts af erlendum samskiptum. Aðildarumsóknin er besta leiðin til þess.

En gott og vel, þessi ríkisstjórn hefur ekki áhuga á auknum vexti af alþjóðlegum viðskiptum.

En einmitt þess vegna er algerlega óskiljanlegt að sjá nýja ríkisstjórn leggja allt kapp á að slá af öll atvinnuþróunarverkefni vítt og breitt um land, skera við trog fjármagn í rannsóknarsjóði og tækniþróunarsjóð, afnema alveg uppbyggingarverkefni í starfsnámi og draga úr framlögum til framhaldsskóla og háskóla. Með slíkri stjórnarstefnu bíður stöðnunin ein.

Í þessu ljósi þarf að skilja nýleg hnjóðsyrði iðnaðarráðherra í garð stjórnenda Landsvirkjunar: Þegar heimatilbúnir hlekkir hugarfarsins – óbeit á alþjóðaviðskiptum og aukinni þekkingarsókn – hafa lamað ríkisstjórnina er bara einn kostur til að auka fjárfestingu.

Það er að gefa raforku til stóriðju.