06. 02 2016

Viðbrögð Landsbankans við gagnrýni minni á sölu Borgunar hafa verið mjög athyglisverð. Bankinn gaf út sérstaka fréttatilkynningu 20. janúar sl. til að mótmæla vangaveltum mínum um rangt verðmat bankans á Borgun, en virðist nú hafa skipt um skoðun. Nú virðist bankinn loks fallast á að verðmatið hafi verið rangt, en heldur því fram að hann hafi verið leyndur upplýsingum. Svör bankans um tildrög og aðstæður Borgunarsölunnar hafa verið misvísandi og ósannfærandi.

Þessi atburðarás er skólabókardæmi um hætturnar sem fylgja því þegar viðskipti í fjármálakerfinu fara fram fyrir luktum dyrum. Stjórnendur Landsbankans bera ábyrgð gagnvart almenningi, hvort sem bankinn er í ríkiseigu eða ekki. Það gera forsvarsmenn annarra fjármálafyrirtækja líka. Fjármálakerfið á að þjóna fólki og fyrirtækjum, ekki sjálfum sér. Atburðarásin virðast einfaldlega hafa verið sú að stjórnendur hafi ákveðið að selja stjórnendum Borgunar - og þeim handvöldu vildarvinum sem þeir komu með í togi - hlut Landsbankans í félaginu, án fullnægjandi rannsóknar. Almenningur í landinu á kröfu til annarra vinnubragða. Það á ekki að vera góðlátlegt vinaspjall sem ræður tilfærslum á eignarhlutum í fjármálakerfinu. Hagnaður Borgunar, eins og Landbankans og annarra fjármálafyrirtækja, byggir á gjaldtöku af almenningi, sem á nú í vaxandi mæli ekki einu sinni val um hvar hann er í viðskiptum. Á svona fyrirtækjum hvílir rík ábyrgð, sem þau hafa ekki axlað að nokkru leyti. 

Borgunarmálið er greinilega rétt að byrja. Alvöru rannsóknar er þörf.