10. 09 2016

Ég þakka öllum þeim sem tóku þátt í prófkjöri Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi nú síðustu daga. Ég er þakklátur fyrir þann stuðning sem ég fengið hjá flokksfólki og stuðningsfólki flokksins í þessu frábæra kjördæmi nú, sem og ávallt áður. Takk fyrir mig. 

06. 09 2016

Ég gef kost á mér til endurkjörs í flokksvalinu um komandi helgi og sækist eftir að leiða lista Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi.

Aðalsmerki Samfylkingarinnar hefur verið að þora að takast á við stóru málin. Það eigum við að gera áfram og láta öðrum eftir dægurþrasið og að elta það sem hæst glymur hverju sinni:

1.       Húsnæðismálin eru brýnasta málið. Ungt fólk kemst ekki í ódýrt og öruggt húsnæði, engin úrræði eru fyrir heilsuhraust aldrað fólk og alltof fá hjúkrunarrými bíða þeirra sem þurfa. Það þarf að auka framboð á húsnæði og auðvelda fólki að kaupa það.

2.       Atvinnumálin eru stóra málið sem allt snertir og er lykillinn að farsælli framtíð. Á meðan við þrösum um hitt og þetta hafa orðið grundvallarbreytingar í atvinnumálum. Vel launuðum þekkingarstörfum fækkar og nýsköpun er helst í ferðaþjónustu, sem þrengir aftur að húsnæðismarkaðnum og vinnumarkaðnum. Engin framtíðarstefna er í atvinnumálum. Haftakróna og óhóflegir vextir ryðja þekkingarstörfum úr landi. Fjármálakerfið er nær allt í opinberri eigu og sú staða býður upp á mikil tækifæri til uppstokkunar og endurbyggingar. Gjaldmiðilsmálin verður líka að endurskoða. Þessi tækifæri þarf að nýta.

3.       Við þurfum að fjárfesta í velferðarþjónustunni. Hún er fjárþurfi, en líka um margt mjög góð. Víða eru miklar glufur. Það er sérlega sárt að sjá eldri borgara sem ná ekki endum saman og ungt fólk sem hefur dottið úr skóla og kemst hvergi áfram. Það er sárt að sjá fólk á göngum spítala því ekkert hjúkrunarrými bíður. Við þurfum að loka glufunum.