Ég er 1. þingmaður Suðvesturkjördæmis. Ég tók við embætti félags- og tryggingamálaráðherra í maí 2009 og gegndi því embætti til september 2010 og tók þá við embætti efnahags- og viðskiptaráðherra og gegndi því til loka árs 2011. Ég sit nú í utanríkismálanefnd Alþingis.

Í ráðherrastarfinu vann ég fyrst og fremst úr afleiðingum efnahagshrunsins, að því að draga úr velferðartjóni og leggja grunn að efnahagslegri endurreisn.

Í efnahags- og viðskiptaráðuneytinu vann ég að efnahagsáætlun til næstu ára til að festa í sessi þann árangur sem þegar hefur náðst og halda áfram að koma íslensku efnahagslífi í fullt samband við umheiminn. Afnám hafta, mótun peningamálastefnu, áframhaldandi hagræðing og endurskipulagning fjármálakerfisins og aukin áhersla á samkeppnishæfni atvinnulífsins voru stærstu verkefni þessara mánaða, auk þess sem úrvinnsla Icesave-málsins eftir synjun í þjóðaratkvæðagreiðslu var á okkar herðum. Við lukum við efnahagsáætlunina sem gerð var með AGS, komum skilanefndum og slitastjórnum undir eftirlit FME og stóðum fyrir lagasetningu til að tryggja öllum heimilum með gengistryggð lán þann endurreikning sem leiddi af ógildingu Hæstaréttar á gengistryggðum lánum.

Í félags- og tryggingamálaráðuneytinu þurfti að taka erfiðar ákvarðanir um niðurskurð í ríkisútgjöldum, en verja jafnframt þá sem lakast stóðu fyrir afleiðingum niðurskurðar. Við breyttum allri lagaumgjörð um skuldir heimila og fyrirtækja og stóðum fyrir löggjöf sem kvað á um lögun krafna að greiðslugetu og eignaverði. Í kjölfarið fluttist framkvæmd greiðsluaðlögunar undir félags- og tryggingamálaráðuneytið og ný og bætt greiðsluaðlögunarlöggjöf leit dagsins ljós. Stóraukið atvinnuleysi skapaði vanda, en okkur tókst að hleypa af stokkunum stórfelldu átaki í menntun atvinnulausra ungmenna, sem mun áfram skila miklum árangri á næstu árum. Við náðum líka að hefja átak í byggingu hjúkrunarheimila og mikilvægum skrefum i réttindabaráttu fatlaðra. Í jafnréttismálum stendur upp úr setning laga um kynjahlutföll í stjórnum fyrirtækja og aukin áhersla á kynbundið ofbeldi. Við fitjuðum upp á nýjum lausnum í húsnæðismálum, með frumvörpum um auknar og bættar lánaheimildir til félagslegs íbúðarhúsnæðis og til veitingar óverðtryggðra lána.

Sem þingmaður sinnti ég mikið mínum helstu áhugamálum: Efnahagsmálum, alþjóðamálum og velferðarmálum. Mér finnst eitt merkilegasta verkefni stjórnmálanna vera að tryggja öfluga velferð með minni tilkostnaði og gera okkur þannig betur í stakk búin til að standa undir velferðarþjónustunni til lengri tíma litið. Ég leiddi sem formaður allsherjarnefndar setningu fyrstu löggjafarinnar um greiðsluaðlögun í apríl 2009. Það verkefni – og glíman síðan við skuldavandann – skipti mig miklu, enda hefur mér lengi sviðið það hrikalega óréttlæti sem fólst í hinni mannfjandsamlegu gjaldþrotalöggjöf sem hér var við lýði allt fram að þessum breytingum.

Ég lauk embættisprófi í lögum frá Háskóla Íslands árið 1991 og stundaði framhaldsnám í Evrópurétti við Collège d'Europe í Belgíu. Ég var ráðgjafi Jóns Baldvins Hannibalssonar utanríkisráðherra 1992-1994 og starfaði síðan á viðskiptaskrifstofu utanríkisráðuneytisins, varnarmálaskrifstofu og hjá fastanefnd Íslands hjá Atlantshafsbandalaginu í Brussel til 1998.

Síðan rak ég eigin lögmannsstofu, Evrópuráðgjöf, og sinnti verkefnum fyrir fyrirtæki og opinbera aðila þar til ég var kjörinn á þing. Ég kenndi Evrópurétt við Háskólann í Reykjavík, hef haldið fjölda fyrirlestra um Evrópumál og sat í stjórn Evrópuréttarstofnunar Háskólans í Reykjavík.

Ég starfaði með Samfylkingunni frá stofnun og var m.a. formaður Evrópustefnunefndar á landsfundinum 2001, þar sem samstaða náðist um stefnumótun flokksins í Evrópumálum. Ég gekk í Alþýðubandalagið í Kópavogi þegar ég hafði aldur til, sat í framkvæmdastjórn og miðstjórn flokksins, var oddviti Æskulýðsfylkingar Alþýðubandalagsins og var einn af stofnendum Birtingar.

Ég er 45 ára að aldri. Kona mín er Sigrún Eyjólfsdóttir og við eigum samtals þrjú börn og að auki á ég á einn dótturson. Ég er uppalinn til sex ára aldurs á Snæfellsnesi og síðan í Kópavogi, yngstur fjögurra barna séra Árna Pálssonar og Rósu Bjarkar Þorbjarnardóttur.